Skip to content

Ofbeldi stjórnenda gagnvart starfsfólki eftir starfslok

Langvarandi viðvera við ofbeldisaðstæður er skemmandi fyrir einstaklinga, andlega, tilfinningalega sem og líkamlega. Hjá atvinnurekendum þar sem ofbeldi af hendi stjórnendum gagnvart starfsfólki viðgengst er því algengt að sjá niðurbrotna einstaklinga, sem og háa veltu á starfsfólki.

Hvort svo sem starfsfólk hættir störfum sjálft í von um jákvæðari reynslu hjá nýjum atvinnurekanda, eða sé tilneytt til þess af hendi stjórnenda, þá þýða starfslok ekki endilega að ofbeldishegðun gagnvart starfsfólkinu sé lokið.

Starfsfólk (þolendur) sem fests hefur í hringiðu ofbeldis af hálfu stjórnanda (geranda) sætir oft á tíðum áframhaldandi ofbeldi þó svo viðveru á vinnustað sé lokið.

Fjárhagslegt ofbeldi

Hafi vinnuveitandi óskað eftir því að starfsfólk vinni ekki út uppsagnarfrest sinn, eða starfsfólk hefur fengið starfslokasamning sem kveður á að viðveru sé ekki óskað, þá á starfsfólk inni áframhaldandi greiðslur frá vinnuveitanda þó svo viðveru á vinnustað sé lokið.

Getur starfsfólk átt það yfir sér að atvinnurekandi haldi þá réttmætum greiðslum eftir, hvort svo sem það sé í formi launagreiðsla, launatengdra gjalda, eða kostnaðar sem atvinnurekandi á að standa undir gagnvart viðkomandi aðila. Er þetta dæmi um fjárhagslegt ofbeldi, þar sem starfsfólk þarf að halda áfram bardaga sínum gagnvart atvinnurekandanum ítrekað vegna svikinna loforða.

Fjárhagslegt ofbeldi er til þess gert að læsa fólk í viðjum ofbeldissambandsins og veitir gerandanum áframhaldandi valdatilfinningu yfir þolanda sínum. Ofbeldið meitlar jafnframt þolandann áfram niður, svo niðurrífandi aðstæður fyrri vinnustaðar verða áfram þáttur í lífi starfsfólksins. Starfsfólk sem kemur þreytt og niðurbrotið út af vinnustað sem studdi ofbeldishegðun gagnvart því, sér því fram á áframhaldandi niðurrif sem getur leitt til kulnunar, þrátt fyrir að vera ekki virkt á vinnumarkaðinum. Oft er erfitt fyrir einstaklinga sem lenda í áframhaldandi ofbeldi eftir starfslok að fá ástæður aðstæðna sinna skráðar á fyrri vinnuveitanda.

Því er mikilvægt að halda stéttarfélagi sínu upplýstu er kemur að öllum fjárhagslega tengdum ákvörðunum og samskiptum við fyrrverandi atvinnurekanda. Stéttarfélagið grípur þá inn í aðstæður fyrir hönd þolandans, og tekur allt frekara álag af þolandanum.

Félagslegt- og starfstengt ofbeldi

Algengt er að baktal geranda viðhaldist eftir að þolandi hættir að mæta á starfsstöð. Er þá þolandinn tekinn fyrir vegna vinnubragða, afkasta, skapgerðar, eða persónueiginleika, allt í því skyni að draga úr trúverðugleika þolanda varðandi aðgerðir geranda gagnvart sér, sem og til þess að skera á möguleg félagsleg tengsl þolanda á starfsstöð. Stirð samskipti og útskúfun þolanda frá samstarfsfólki er bæði frekara ofbeldi gagnvart einstaklingnum sjálfum, sem og leið gerandans til þess að geta viðhaldið ofbeldishegðun sinni gagnvart öðru starfsfólki sem lærir að sá sem bendir á ofbeldishegðunina hlýtur verra af.

Gerandinn getur líka viðhaldið neikvæðu umtali gagnvart þolanda sínum útá við og þannig haft neikvæð áhrif á starfsmöguleika viðkomandi í framtíðinni. Oft á tíðum er þetta gert með hótunum gagnvart þolanda, að sé ofbeldi geranda rætt frekar þá muni gerandinn stigbundið beita sér í því að vega á starfsheiður þolandans. Er þolandinn þannig keyrður niður í þöggun af hendi geranda sínum, af hræðslu við frekari útskúfun á starfssviði sínu.

Hvað er til ráða?

Athuga skal að áframhaldandi ofbeldi eftir starfslok er eingöngu til þess gert að rífa niður þann tiltekna aðila sem ofbeldið beinist að. Mikilvægt er fyrir þá sem lenda í þessari aðstöðu að hafa umsvifalaust samband við sitt stéttarfélag til þess að sjá um þessi mál fyrir sig.

Eru stéttarfélög þá stuðningur við þolandann á meðan viðkomandi er í þeim aðstæðum sem fyrir eru á vinnustaðnum. Stuðningur þessi er mikilvægur til þess að efla einstaklinginn og hamla því að niðurrifið sem fer fram á vinnustaðnum, sem og utan hans, hafi áhrif á andlega og líkamlega heilsu viðkomandi.

Stéttarfélög hafa ekki mikil ítök er kemur að félagslegu eða starfstengdu ofbeldi, þar koma inn hreinskilin samskipti við samstarfsfólk og aðra aðila á vinnumarkaðinum, sem og gott tengslanet, sem því miður ekki allt starfsfólk á yfir að ráða. Er því mikilvægt fyrir þá aðila sem hafa verið vitni af ofbeldi á vinnustað, að bjóða fram aðstoð í formi meðmæla eða stuðnings eftir að starfslokum einstaklings kemur, með það í skyni að minnka alla snertifleti við geranda.

Stéttarfélög hins vegar geta gripið inn í er kemur að fjárhagslegu ofbeldi, þó svo þau flokki það eingöngu sem launaþjófnað eða samningsbrot.

Að lokum

Mikilvægt er fyrir starfsfólk sem situr fast í viðjum ofbeldistilburða gegn sér á vinnumarkaði að ræða aðstæður ávallt hreinskilningslega og tilkynna áfram til þeirra sem veitt geta stuðning.

Atvinnurekendur eiga ávallt að leyfa starfsfólki að ræða opinberlega og á hreinskilinn máta þær aðstæður sem starfað er við. Opið samtal kemur í veg fyrir hvers kyns samskiptavandamál, sem og leysast mál oft ef gripið er inn í með handleiðslu á hreinskilnum og varfærnum samskiptaaðferðum.

Þegar starfsfólk skynjar sig í aðstæðum sem ekki megi ræða innan veggja starfsstöðvar sinnar, er því mikilvægt að tilkynna málið áfram til síns stéttarfélags, eða beint til lögfræðings, svo hægt sé að fylgja eftir aðstæðum eftir því sem við á og svo stéttarfélagið geti gripið inn í á viðeigandi máta er á þarf að halda. Það að tilkynna mál áfram er einnig til þess gert að þolandi aðstæðna skynji sig ekki einan, og fái stuðning við að komast í gegnum þær neikvæðu aðstæður sem atvinnurekandinn leyfir að viðgangast.

Sé starfsstaður þekktur fyrir að leyfa ofbeldi gagnvart starfsfólki af hendi stjórnenda, þá mun aukið umtal til stéttarfélaga aðstoða þau við að sjá heildarmynd aðstæðna og þannig veita sem flestu af sínu félagsfólki stuðning í þeim aðstæðum sem eru á vinnustaðnum.

Jafnframt er aukið umtal um ofbeldisaðstæður á vinnustað bæði víti til varnaðar öðrum sem mögulega gætu óskað eftir atvinnu á vinnustaðnum, sem og helsta vopn starfsfólks til þess að fá úrlausn á þeim niðurrífandi aðstæðum sem eru við líði.

Mikilvægt er að muna að hvers kyns ofbeldi þrífst í þögninni. Helsta vopn okkar gegn ofbeldisaðstæðum er því ávallt umræðan, að tala saman um aðstæður og benda á þegar ofbeldishegðun er við líði. Því er svo mikilvægt að beina umræðunni að hvers kyns ólíðandi og niðurrífandi hegðun stjórnenda gagnvart starfsfólki.

Saman er heildin sterk, fjöldinn getur yfirstigið þá ofbeldis-fjötra sem einstaklingur læsist í.

Grein birtist fyrst á Smartland þann 12.04.2023 [hlekkur]. Tekið fyrir í viðtali hjá mannlega þættinum 27.04.2023 [hlekkur].