Skip to content

Skilmálar og verklag sem Vinnuhjálp starfar útfrá.

Persónuupplýsingar berast frá atvinnurekendum eða einstaklingum sem óska eftir aðstoð Vinnuhjálpar með tölvupósti. Ávallt er leitast eftir því að söfnun persónuupplýsinga sé haldið í algjöru lágmarki og um leið og úrvinnslu persónugagna er lokið er þeim eytt úr kerfum Vinnuhjálpar. Persónugögn eru ekki geymd í kerfum Vinnuhjálpar heldur hjá viðeigandi aðila hverju sinni.

Vinnuhjálp safnar ekki upplýsingum frá þeim sem heimsækja https://vinnuhjalp.is. Engar vafrakökur eru gefnar út af heimasíðu Vinnuhjálpar, en þjónustuaðili telur fjölda heimsókna á síðuna án skráninga á frekari upplýsingum.

Vinnuhjálp vinnur ávallt útfrá fyrirfram ákveðnum verklagsreglum sem gilda jafnt yfir alla skjólstæðinga sem sækja þjónustu Vinnuhjálpar.

Vinnuhjálp leggur mikið upp úr því að allir mæti jafnir til borðs. Atriði líkt og aldur, áhugamál, búseta, fötlun, hárlitur, heilsufar, kyn, kyneinkenni, kynhneigð, kyntjáning, kynvitund, kynþáttur, lífsskoðanir, líkamsgerð, starfsgeta, stjórnmálaskoðun, trú, tungumál, útlit, þjóðernisuppruni, eða hvað eina annað sem skilgreina megi einstakling á er alfarið óháð störfum Vinnuhjálpar.

Tilgangur fyrsta fundar við hvern aðila er ávallt til að leyfa viðkomandi að tjá þau málefni sem viðkomandi óskar eftir aðstoð með, og laga þjónustu Vinnuhjálpar eftir óskum og þörfum hvers skjólstæðings fyrir sig. Gildir þetta bæði fyrir einstaklinga sem leita aðstoðar Vinnuhjálpar, sem og er Vinnuhjálp starfar fyrir atvinnurekanda í heild sinni.

Aðstæður hverju sinni eru metnar hlutlaust, en með hvern einstaka aðila í huga svo að þjónusta Vinnuhjálpar nýtist til að styrkja viðkomandi aðila sem einstakling sem og í starfi.

Sjái Vinnuhjálp fram á það á einhverjum tímapunkti að ekki verði fært að koma fram við alla aðila jafnt og/eða á hlautlausan máta, ber Vinnuhjálp að tilkynna aðstæður tafarlaust til viðeigandi aðila svo viðeigandi úrbótum sé hægt að koma þar á.

Öll samskipti við einstaklinga eru í trúnaði milli hvers aðila fyrir sig og Vinnuhjálpar, óháð því hvort að aðilinn hafi sem einstaklingur óskað eftir þjónustu Vinnuhjálpar, eða sækir þjónustu Vinnuhjálpar í gegnum atvinnurekanda sinn. Sé Vinnuhjálp að vinna að sérstæku verkefni fyrir hönd atvinnurekanda er aðilum máls ávallt tilkynnt um það hvernig gögnum máls sé háttað, og hver fái hvaða upplýsingar og hvenær.

Vinnuhjálp leitast eftir því að takmarka alla söfnun og geymslu á persónugögnum almennt. Sé ekki hjá því komið er leitast við að styrkja og styðja einstaklinga til að halda utan um og sjá um eigin persónugögn.

Sé Vinnuhjálp skylt að skila af sér gögnum vegna úrlausna vissra mála, tilkynnir Vinnuhjálp öllum viðeigandi aðilum máls um hvaða gögn það séu, sem sem og hver fái gögnin afhend og afhverju.

Ef viðskiptavinur eða aðili máls óskar eftir að koma með athugasemdir um meðhöndlun persónuupplýsinga eða verklag Vinnuhjálpar, er viðkomandi beðinn um að koma athugasemdum til Vinnuhjálpar á netfangið vinnuhjalp@vinnuhjalp.is.

Verklagsreglur þessar eru ritaðar og gefnar út 03.10.2023, og verða endurmetnar ef þörf er á.